Erasmus+ verkefnið CoCoon – Yfirlit
- anna70463
- 3 days ago
- 2 min read

CoCoon-verkefninu lýkur – hér er yfirlit yfir verkefnið og það sem FLR lagði til
Kjarnamarkmið
Verkefnið miðar að því að flýta grænni umbreytingu með því að samþætta lífhönnun (bio-design) inn í háskólastig og starfs- og framhaldsfræðslu (VET). Helstu markmið eru:
Námskrárþróun: Að þróa nýstárleg lífhönnunarefni sem sameina líffræði, hönnun og tækni til að takast á við áskoranir tengdar sjálfbærni.
Þekkingarmiðlun: Að styðja við samvinnu milli rannsóknastofnana og atvinnulífsins við gerð fræðsluefnis, þannig að færni nemenda og þátttakenda endurspegli þarfir markaðarins.
Kerfisbreyting: Að styðja við umbreytingu í átt að hringrásar- og sjálfbærum lífhagkerfum með þverfaglegri nálgun.
Helstu afurðir hjá FLR
Lífhönnunarefnin eru hönnuð til að hjálpa nemendum og áhugafólki að hefja vegferð sína í lífhönnun. Fab Lab Reykjavík útbjó þrjú efni og Unruly Matters tvö. Öll efnin má finna á: https://www.cocoon.bio/modules.
Sýndarsýningin var sett upp til að gefa lífhönnuðum vettvang til að deila verkum sínum og efla samfélag innan verkefnisins. Fólk frá 14 löndum sendi inn verk til sýningarinnar, sem gefur góða mynd af því fjölbreytta starfi sem á sér stað á sviði lífhönnunar. Sýninguna má skoða á: https://www.cocoon.bio/virtual-exhibit.
Við í Fab Lab Reykjavík höfum einnig öðlast meiri reynslu í lífefnis- og lífhönnun og tökum fagnandi á móti þeim sem vilja nýta aðstöðuna til slíkra verkefna.
Neðar má sjá myndir úr lífhönnunarefnunum sem við unnum að, þar á meðal mygluleður (mycelium leather), gersmyndir (yeastograms) og lífljómun (bioluminescence).
Ef þú hefur einhverjar spurningar tengdar lífhönnun eða lífefnum í tengslum við smiðjuna, þá er hægt að hafa samband við anna@flr.is eða flr@flr.is. Fyrir almennar upplýsingar um verkefnið má fara á https://www.cocoon.bio/.
Sérstakar þakkir fá CoCoon-teymið fyrir að leyfa okkur að taka þátt í þessu verkefni. Við höfum öll lært svo mikið hvert af öðru.





















Comments