FB og Fab Lab Reykjavík taka þátt í nýsköpunarverkefni um græn borgarsvæði
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti (FB) og Fab Lab Reykjavík taka nú þátt í metnaðarfullu Evrópuverkefni, GreenInCities, sem er hluti af Horizon Europe áætlun Evrópusambandsins. Markmið verkefnisins er að þróa, prófa og sannreyna aðferðir og verkfæri sem stuðla að sjálfbærni og grænni borgarskipulagi með sérstakri áherslu á svæði sem skortir grænt rými. Verkefnið felur í sér samvinnu við sérfræðinga á sviði aðlögunar- og borgarskipulags til að skapa nýstárlegar lausnir í endurnýjun, endurnýtingu, endurhæfingu og mengunarvörnum.
Helstu áskoranir og markmið verkefnisins
GreenInCities leggur áherslu á þrjár megin áskoranir:
Samfélagslegur viðbúnaður og vitund – Verkefnið miðar að því að efla vitund viðkvæmra hópa gagnvart loftslagsbreytingum og sjálfbærni.
Græning og endurnærandi inngrip – Verkefnið leitast við að fara lengra en hefðbundin grænkun svæða með því að nýta frumlegar og endurnærandi aðferðir við endursköpun borgarsvæða.
Nýting tækninnar – Lögð er áhersla á nýjustu tækni til að hámarka samsköpun, auka endurnýjun og bæta áhrif grænna lausna í borgarumhverfi.
Samvinna í Breiðholti
Reykjavíkurborg er einnig þátttakandi í verkefninu, og mun sérstaklega vinna að samsköpun og þróun grænna svæða í Breiðholti í samvinnu við íbúa hverfisins. Þessi svæði munu meðal annars innihalda æti- og skrautgarða. Samstarf þessara aðila miðar að því að samþætta heilsu fólks og náttúru til að bæta borgarumhverfið og grænka borgir.
Flottur hópur kennara FB, starfsfólk Fab Lab Reykjavík, Háskóla Íslands og Grasagarðsins eða ræða saman um framtíðar möguleika grænna svæða í borgini.
Verkefnið í stuttu máli
GreenInCities er fjögurra ára verkefni sem hófst formlega 1. janúar 2024. Það er fjármagnað af Horizon Europe og inniheldur 31 samstarfsaðila frá ýmsum löndum. Fab Lab Reykjavík, FB og Reykjavíkurborg munu í sameiningu leggja sitt af mörkum til að gera borgir grænni og bæta lífsgæði íbúa þeirra.
Frekari upplýsingar um verkefnið má nálgast á heimasíðu þess, greenincities.eu. Einnig er hægt að hafa samband við verkefnastjóra, Bryndísi Steinau Friðgeirsdóttur, ef áhugi er á að taka þátt í samtalinu.
Comentários